Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Saga skólans

Tónlistarskóli Garðabæjar var stofnaður 1964 og hét þá Tónlistarskóli Garðahrepps. Hann var upphaflega rekinn af Tónlistarfélagi Garðahrepps sem stofnað var sama ár. Aðalhvatamenn að stofnun skólans voru Helgi K. Hjálmsson, Vilbergur Júlíusson skólastjóri barnaskólans, sr. Bragi Friðriksson og Ólafur G. Einarsson þáverandi sveitastjóri. Skólastjóri var ráðinn Guðmundur Norðdahl og gegndi hann því starfi til ársins 1975. 
 
Fyrsta skólaárið voru 30 nemendur og 3 kennarar við skólann. Kennsla fór að mestu fram í barnaskólanum, en einnig á heimilum kennara og skólastjóra. Strax í upphafi var stefnan tekin á öflugt lúðrasveitastarf auk hljóðfæranáms á fiðlu, selló, gítar og píanó. Smám saman fjölgaði nemendum og kennslugreinum. Skólinn bjó lengi vel við þröngan kost í húsnæðismálum sem kom þó ekki niður á vinsældum hans og góðum árangri. Árið 1975 tók Garðabær við rekstri skólans og þá var jafnframt ráðinn nýr skólastjóri Alma E. Hansen og gegndi hún því starfi til ársins 1984. Á þessum árum hét skólinn Tónlistarskólinn í Görðum. Árið 1984 tók Gísli Magnússon við stöðunni og sama ár var nafni skólans breytt í Tónlistarskóli Garðabæjar. Gísli gegndi stöðunni til áramóta 1999-2000.  Árið 1999 flutti tónlistarskólinn í glæsilegt húsnæði að Kirkjulundi 11. Agnes Löve var skólastjóri árið 2000 - 2012 en þá tók Laufey Ólafsdóttir við. Sólveig Anna Jónsdóttir var ráðin aðstoðarskólastjóri  við skólann haustið 2013.
 
Tónlistarskóli Bessastaðahrepps var stofnaður 1987, en frá 1982 var í hreppnum starfrækt deild úr Tónlistarskóla Garðabæjar. Aðalhvatamenn að stofnun hennar voru Erla Sigurjónsdóttir, þáverandi oddviti, Jytte Frímannsson og María Sveinsdóttir.  Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir var deildarstjóri Álftanesdeildar frá 1984 og síðan skólastjóri Tónlistarskóla Bessastaðahrepps frá stofun skólans til 2013. 
 
Sveitafélögin Álftanes og Garðabæ voru sameinuð 2013 og þá voru tónlistarskólarnir einnig sameinaðir. 
Linda Margrét Sigfúsdóttir var ráðin deildarstjóri við Álftanesdeild og starfar hann eins og hann gerði áður í sérálmu sem er tengibygging við  Álftanesskóla.
 
 
 
Hafðu samband