Nemendur Tónlistarskólans með "flashmob" í Hagkaup

Tónlistarskóli Garðabæjar fagnar 50 ára afmæli sínu á þessu ári. Viðskiptavinir Hagkaupa við Litlatún urðu vitni að fyrsta viðburði afmælisárins sl. föstudag þegar fjórir nemendur Tónlistarskólans, sem voru á meðal viðskiptavina verslunarinnar, tóku skyndilega upp hljóðfæri og byrjuðu að spila af miklum móð.
Fyrsti nemandinn var staddur við afgreiðslukassana í Hagkaup þegar hann tók upp saxófóninn og byrjaði að spinna. Ekki leið á löngu þar til hinir nemendurnir þrír sem voru dreifðir um verslunina tóku sín hljóðfæri upp úr innkaupakerrum og tóku undir tónlistina. Þeir mættust síðan allir fremst í búðinni og um leið birtist sá fimmti með skilti sem á stóð Tónlistarskóli Garðabæjar 50 ára. Að því loknu létu nemendurnir sig hverfa úr versluninni.
Laufey Ólafsdóttir, skólastjóri segir atburðinn hafa tekist sérlega vel og að viðskiptavinir verslunarinnar hafi takið honum með mikilli gleði. Hún segir að bæjarbúar geti átt von á fleiri skemmtilegum atburðum, bæði óvæntum og auglýstum út afmælisárið.
Myndband frá "flashmobinu"