Sinfoníuhljómsveit tónlistarskólanna heldur tónleika í Langholtskirkju 30. janúar

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar tónlistarskólanna verða haldnir í Langholtskirkju laugardaginn 30. janúar kl. 16:00. Einleikarar á píanó með hljómsveitinni eru Árni Halldórsson, Hugrún Britta Kjartansdóttir og Rebekka Friðriksdóttir sem eru öll nemendur í Tónskóla Sigursveins. Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson. Að þessu sinni eru 15 nemendur úr Tónlistarskóla Garðabæjar í sinfoníuhljómsveitinni.
Á efnisskránni á laugardaginn:
•Jón Ásgeirsson: Fornir dansar – úrval
•Dmitri Shostakovitsj: Píanókonsert nr. 2
•Robert Schumann: Sinfónía nr. 4
Miðasalan er við innganginn - almennt miðaverð er 3000 kr. Nemar, öryrkjar og eldri borgarar: 1500 kr.
Auglýsing tónleikanna (pdf-skjal)
Samstarfsverkefni fjögurra tónlistarskóla
Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna er samstarfsverkefni fjögurra tónlistarskóla á höfuðborgarsvæðinu, Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarskóla Garðabæjar og Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar. Áttatíu ungir tónlistarnemar, flestir á grunn- og framhaldsskólaaldri, skipa hljómsveitina.
Sinfóníuhljómsveit tónlistarskólanna veitir þeim sem komnir eru áleiðis í tónlistarnámi þjálfun í að leika í fullskipaðri hljómsveit og er hún mikilvægur vettvangur til þjálfunar í hljómsveitarleik undir handleiðslu viðurkenndra tónlistarmanna og stjórnenda. Sömuleiðis er framúrskarandi hljóðfæraleikurum úr hópi nemenda gefið tækifæri á að leika einleik með hljómsveitinni. Þá er á hverju ári íslenskt verk á efnisskrá hljómsveitarinnar.