Maxímúsartónleikar í Hafnarfirði og Hörpu
Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar ásamt Strengjasveit Tónlistarskóla Garðabæjar mun halda þrenna tónleika með tónlistarævintýrinu um tónlistarmúsina Maxímús Músíkmús í Hásölum Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og í Hörpu um næstu helgi. Flutt verður sagan "Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann" með sögumanni, myndum og tónlistaratriðum með um 50 hljóðfæraleikurum en á efnisskránni verða hljómsveitarverkin Í höll Dofrakonungs eftir Grieg, þáttur úr Leikfangasinfóníunni og að sjálfsögðu Lagið hans Maxa en sjálfur Maxímús Músíkús mun koma í heimsókn og dansa við lagið sitt.
Fimm einleiksatriði eru einnig á efnisskránni þar sem ungir einleikarar á blásturs- og strengjahljóðfæri koma fram með hljómsveitinni og flytja m.a. þjóðlögin Á Sprengisandi og Krummavísur auk verka eftir Dvorák og Gossec.
Stjórnandi hljómsveitarinnar er Ármann Helgason sem hefur fengið dyggan stuðning og aðstoð frá strengjakennurum úr Hafnarfirði og Garðabæ við verkefnið.
Tónleikarnir í Hásölum verða föstudaginn 25.október kl. 9.00 og 10.15 og er um 400 grunnskólabörnum í Hafnarfirði boðið á þá tónleika.
Tónleikarnir í Hörpu verða á Fjölskyldustund Hörpu í Kaldalónssalnum, sunnudaginn 27.október kl. 11.30. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir þangað á meðan húsrúm leyfir.