Vegna Covid-19
Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi (6. mars sl.) í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis vegna kórónaveiru (Covid-19)
Við í Tónlistarskóla Garðabæjar leggjum nú sérstaka áherslu á hreinlæti, svo sem að nemendur og kennarar þvoi sér um hendur og spritti fyrir kennslustundir. Á salernum skólans eru leiðbeiningar um handþvott. Það er spritt í öllum stofum skólans og á ýmsum stöðum á göngum og salernum. Kennarar þrífa helstu snertifleti eins og nótnaborð á píanóum, nótnastatíf, hurðarhúna o.fl. með sprittvökva milli kennslustunda.
Mikilvægt er að heima sé rætt við börnin og þeim leiðbeint um handþvott, að hósta eða hnerra í olnbogabót en ekki í lófa og annað sem fram hefur komið að geti hægt á eða komið í veg fyrir smit.
Nemendur þurfa að koma með sín eigin skriffæri í tónfræðagreinar og nemendur fá ekki lánaða trommukjuða eða hljóðfæri á samspils- eða hljómsveitaæfingum.
Við bendum jafnframt á mikilvægar upplýsingar frá embætti landlæknis um hvernig forðast eigi smit kórónuveirunnar Covid-19 og hvað eigi að gera ef grunur vaknar um smit.
Einnig er bent sérstaklega á símanúmerið 1700, sem allir eiga að hringja í ef áhyggjur af smiti eru til staðar. Á vefsíðum almannavarna og embætti landlæknis eru bestu upplýsingar um þessi mál. www.landlaeknir.is
Stjórnsýslan og heilbrigðisyfirvöld vinna nú kappsamlega gegn útbreiðslu veirunnar og viljum við leggja áherslu á að farið sé að tilmælum sóttvarnalæknis og annarra sérfræðinga hvað snertir hreinlæti, sýkingarvarnir, sóttkví og samstöðu.